Fyrri mynd
Nsta mynd
...
English

Hreinsun og vinnsla kræklings

Eftir að gámar hafa verið settir á ramp eftir löndun hefst dæling á hreinsuðum sjó úr borholum við sjávarkambinn í gámana, síaður og geislaður með UV ljósi til þess að fullnægja stífustu kröfum um heilnæmi. Sírennsli er á hreinsuðum sjó í gámana uns ljóst er að skelin hefur hreinsað sig af öllum þörungaleifum. Stöðugt eftirlit þarf að vera með því hvort þörungar séu í skelinni. Þörungagróður á vissum árstíma er eitraður og óhæfur til neyslu.

Þegar skelin hefur hreinsað sig er gámurinn fluttur að losunarbúnaði, hann tæmdur og vinnsla skeljarinnar hefst. Skelin er fyrst stærðarflokkuð. Smáskel, sem til fellur, er sekkjuð og sett út aftur til ræktunar uns hún hefur náð söluhæfri stærð. Vinnnsluhæf skel fer næst í hreinsikamba þar sem hár og skegg er fjarlægt en svo nefnast þeir þræðir sem skelin myndar. Eftir kembun er skelin komin í söluhæft ástand sem fersk afurð. Á þessu stigi væri ferskri skel pakkað eftir óskum kaupenda. Slíkar pakkningar eru m.a. sekkjun eða loftþéttar umbúðir.

Skel til frekari vinnslu færi eftir kembun í hitameðferð þ.e. sjokkeringu en við það losnar skelvöðvinn frá skelinni. Skel og vöðvi falla í saltupplausn þar sem vöðvinn flýtur í saltpæklinum, en skel og fastur úrgangur sekkur til botns. Skelvöðvinn berst í pækilstraumi að færibandi inn í vinnslusal. Í vinnslusal er vöðvinn hreinsaður, flokkaður, lausfrystur og pakkað í pakkningar samkvæmt óskum kaupenda. Fullpökkuð afurð er svo geymd í frystiklefa uns afskipun á sér stað. Áætlað er að verksmiðjan þurfi að geta annað, við hámarksafköst í fullri stærð, allt að 125 tonnum á sólarhring.

Í tengslum við verksmiðjuna er nauðsynlegt að hafa vel útbúnar rannsóknarstofur fyrir tvöfalt gæða eftirlits kerfi, þar sem mögulegt er að fylgjast með þróun á þörungainnihaldi skeljarinnar sem og gerla innihaldi. Skel er mjög viðkvæm sem matvara og óæskilegar bakteríur geta náð að fjölga sér mjög hratt ef aðstæður til slíks skapast. Gott gæðaeftirlit er því forsenda að framleidd afurð verði heilnæm matvara.

Skelin og harður úrgangur færi í kvörn þar sem það er malað í sandkornastærð. Gert er ráð fyrir að 30 – 40 þúsund tonn af slíkum sandi mundi falla til á ári. Rætt hefur verið við fulltrúa EROCA um samstarf varðandi úrganginn. Eroca er samstarfshópur sem hefur það hlutverk að fylgjast með breytingum á sýrustigi sjávar í Norður-Íshafi, þátttakendur í hópnum eru meðal annars Hafrannsóknarstofnun og Háskólinn í Bergen. Komið hefur til álita hvort nota megi kalkríkan úrgangssandinn frá kræklingavinnslu til að vinna á móti hækkandi sýrustigi sjávarins og verður þeim viðræðum og samstarfi haldið áfram.

Staða þessa verkefnis er nú, að komin eru drög og teikningar af verksmiðju. Gerð hefur verið kostnaðaráætlun fyrir slíka verksmiðju bæði varðandi tækjabúnað og húsnæði.

Áætlað er að bátur landi skel beint við vinnslu og má sjá uppdrátt af vinnslunni og dæmi um aðstöðu á neðangreindri mynd (þar sem horft er á Langeyri í Álftafirði sem mögulega staðsetningu).

Verksmiðjan (séð úr vestri)

Endanleg staðsetning ræðst þó af skipulagsvinnu og hagkvæmni og er m.a. verið að hugsa um staðsetningu í Súðavík, Bolungarvík og á Ísafirði en þessir staðir hafa hafnaraðstöður og iðnaðarlóðir sem gætu hentað.

 
2014SED